Rýnt í hugmyndir um kynferðislega áreitni í norrænu safnriti
Í nýju safnriti skrifa vísindamenn og greinarhöfundar frá Norðurlöndunum um kynferðislega áreitni, ofbeldi og réttlæti. Stofnanirnar NIKK (Nordisk information för kunskap om kön) og skrifstofa kynjarannsókna við Gautaborgarháskóla (Nationella sekretariatet för genusforskning) standa á bak við bókina.
Finna má eldheitar svipmyndir og nýjar kenningar í safnritinu Re-Imagining Sexual Harrassment – Perspectives from the Nordic Region sem Policy Press/Bristol University Press gefur út þann 18.apríl. Í bókinni leitast greinahöfundar víða að frá Norðurlöndunum við að auka við og dýpka þekkingu á ofbeldi í atvinnulífinu, kynferðislegri áreitni innan háskólasamfélagsins og að skoða áskoranir og möguleika réttarkerfisins. Í ritinu birtast bæði fræðigreinar og greinar með listrænu ívafi.
– Við buðum inn fræðimönnum starfandi á Norðurlöndunum sem hafa möguleika á að veita ný sjónarhorn og fræðilegt samhengi. Til þess að fá skýrari mynd af þekkingu um jaðarsetningu þótti okkur einnig mikilvægt að fá framlög frá fólki sem stendur utan háskólasamfélagsins. Skáldskapur nær betur að fanga suma líkamlega reynslu og þekkingu um jaðarsetningu og andspyrnu, segir Maja Lundqvist, ein af þremur ritstjórum bókarinnar.
Safna saman fjölda rannsókna
Í bókinni leiða ritstjórarnir rannsóknarsviðið inn á fjórar þematískar brautir. Á þeirri fyrstu er kynjamisrétti og kynferðisleg áreitni í samhengi við önnur form ofbeldis í samfélaginu til skoðunar. Sú næsta skoðar réttlæti, jaðarsetningu í réttarkerfinu og ábyrgð ríkisins. Þá er rýnt í ólíkar hliðar á norrænu jafnrétti og það hvernig ímyndin um réttlátt svæði sem er vinsamlegt konum getur í sjálfu sér verið hindrun fyrir breytingar. Fjórða þemað víkkar svo út hugmyndina um það hvað felst í að ”gera eitthvað í vandamálinu” annað en að skrifa tékklista og móta stefnur.
– Bókin færir okkur kerfislegan skilning á því hvað felst í því að búa á Norðurlöndunum. Þegar kynferðisleg áreitni er skoðuð útfrá hugtökum um birtingarmyndir valds sem hafa þróast í krítískum fræðum þá koma fram munstur sem sýna hvernig hvernig ólíkar gerðir jaðarsetningar og valds viðhalda og styrkja hvort annað, segir ritstjórinn Kajsa Widegren.
Þörf er á ábyrgð á víðfeðmum vanda
Mikilvægt þema í bókinni er hvernig kynferðisleg áreitni í samfélaginu er álitin afbrigðileg en er á sama tíma normalíseruð. Þess vegna má ekki líta svo á að kynferðisleg áreitni sé eitthvað sem hefst og tekur enda í einstökum athöfnum, samkvæmt ritstjóranum Angelica Simonsson.
– Það þarf að dreifa ábyrgðinni. Ef einungis er litið á kynferðislega áreitni sem einöngruð atvik á vinnustöðum þá mun okkur bara takast að eiga við hluta að vandanum, segir hún.
Stofnanirnar NIKK (Nordisk information för kunskap om kön) og skrifstofa kynjarannsókna við Gautaborgarháskóla (Nationella sekretariatet för genusforskning) standa á bak við bókina. Hún er afurð þess starfs um kynferðislega áreitni sem stofnanirnar hafa drifið í Svíþjóð, norrænu og alþjóðlegu samhengi frá því #Metoo-hreyfingin hófst haustið 2017. Þessi margra ára vinna hefur gert stærð og eðli vandamálsins sýnilega sem leiddi til hugmyndarinnar um að vinna að bók.
– Við vonumst til að bókin muni verða mikilvægt innlegg í umræðuna um kynferðislega áreitni. Norðurlöndin eru flókið landsvæði og í bókinni er sýnt fram á að hugmyndin um að sum lönd séu komin mun lengra á veg í jafnréttisbaráttunni eða hafi jafnvel lokið allri vinnu í jafnréttismálum getur staðið í veginum fyrir að hægt sé að vinna að breytingum, segir Maja Lundqvist.
- Author: NIKK
- Categories: Jafnréttis- og velferðarstefna
- Year of publication: 2023-04-27