Skip to main content is

Stemmt stigu við hatursglæpum gegn hinsegin fólki (LGBTI) á Norðurlöndum

Þótt Norðurlandaþjóðirnar séu meðal framsæknustu þjóða heimsins hvað varðar stöðu og velferð hinsegin fólks í sínum samfélögum búa mörg úr þeim hópi við fordóma, ofbeldi, ógn og áreitni af ýmsu tagi vegna kynhneigðar sinnar og/eða kyntjáningar. Út er komin skýrsla sem varpar ljósi á stöðuna.


Í skýrslunni Hatursglæpir gegn hinsegin fólki (LGBTI) á Norðurlöndum er því lýst hvernig Norðurlandaþjóðirnar vinna að því að ná utan um og stemma stigu við hatursglæpum gagnvart hinsegin fólki og sjónum beint að markverðum þáttum í þeirri vinnu, svo sem hlutaðeigandi aðilum, aðgerðaáætlunum og löggjöf.

Öll hafa rétt til þess að vera til, búa og starfa á Norðurlöndum án þess að þurfa að óttast ofbeldi, ógn og mismunun. Með þessari úttekt fáum við betri forsendur til að bæta stöðu hinsegin fólks með því að benda á hvaða aðgerða er þörf. Til að mynda þarf að efla samstarf stjórnmálanna, opinberra aðila og almennings, segir Thomas Blomqvist jafnréttismálaráðherra Finnlands.

Í úttektinni er meðal annars skoðað hvernig lögregla og réttarkerfi í hverju landi fyrir sig vinna úr hatursglæpum. Þá eru tiltekin dæmi um ýmis verkefni og framtak sem auka þekkingu á sviðinu, auk þess sem ýmis konar stuðningsaðgerðir við þolendur eru tíundaðar. Samfélagslegt framtak og hlutverk almennings eru sömuleiðis til umfjöllunar.


Fyrirbyggjandi aðgerðir algengar

Skýrslan dregur upp nokkuð jákvæða mynd af þróun þessa málaflokks á Norðurlöndum síðustu áratugina en meðal þess sem er sérstaklega tiltekið er nýleg löggjöf um hatur og mismunun gagnvart hinsegin fólki. Í flestum Norðurlandanna tíðkast einnig fyrirbyggjandi aðgerðir til að ná utan um og fækka hatursglæpum sem fólk verður fyrir vegna kynhneigðar sinnar eða kyntjáningar. Í mörgum tilfellum koma opinberir aðilar og félagasamtök eða stofnanir saman að slíkum aðgerðum.

Meðal annarra jákvæðra þátta í þróun þessara mála sem tilteknir eru í skýrslunni er að í mörgum Norðurlandanna er úrvinnsla hatursglæpa í nokkrum forgangi. Gögnum er þá víða safnað um slíka glæpi, svo sem tíðni og staðsetningu, til að auka þekkingu á þeim. Til dæmis um aðrar aðgerðir í því skyni sem margar Norðurlandaþjóðir hafa ráðist í má nefna átak um að hvetja fólk til að tilkynna hatursglæpi, svo og fræðslu og þjálfun fyrir viðbragðsaðila.

Í skýrslunni koma að sama skapi fram takmarkanir og sóknarfæri í aðgerðum Norðurlandaþjóðanna gegn hatursglæpum. Á meðal þeirra eru vinnulag lögreglu og samvinna ólíkra aðila sem koma að úrvinnslunni. Dæmi um það sem telst ábótavant í vinnulagi lögreglu samkvæmt skýrslunni er misgreining, þ.e. að greina ekki undirliggjandi fordóma- eða haturshugmyndir að baki frömdum glæpum sem í raun ættu að flokkast sem hatursglæpir. Annað dæmi tekur til þess litla trausts til lögreglunnar meðal þess hóps sem er í mestri hættu á að verða fyrir hatursglæpum. Slíkar kringumstæður lágmarka líkur á að úrvinnsla á slíkum glæpum verði eins og hún getur best orðið. Í skýrslunni er loks bent á að efla þurfi samstarf lögreglu við stofnanir og samtök sem styðja við þolendur.


Frekari aðgerðir til að bæta stöðu hinsegin fólks á Norðurlöndum

Skýrslan er liður í víðtækri aðgerðaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni hinsegin fólks á Norðurlöndum sem sett var á fót 2020. Í tengslum við hana hafa þegar verið birtar rannsóknir sem snúa að heilsu og velferð ungs hinsegin fólks en á næsta ári stendur til að gera fræðilega úttekt á lífsskilyrðum eldra hinsegin fólks.

Skýrslan Hatursglæpir gegn hinsegin fólki á Norðurlöndum kemur út á vegum NIKK að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar í sambandi við málstofu,  LGBTI People‘s safety and Well-being — Good Practices in the Nordics, sem haldin verður í Helsinki þann 30. nóvember.

Read the full report here (PDF)
An accessible version of the publication can be found here

Updated 1 December 2021